Rákareinin hefur hrúðurkennt, reitskipt
þal sem er svart til ólífugrátt ásýndar, smátíglótt í miðju en oft
með þverstæðar rákir eða smábleðlótt við jaðarinn. Þalreitir eru
smáir, 0,2-0,6 mm í þvermál, gulgráir, grágrænir eða grásvartir á
litinn, með áberandi svart forþal á milli. Jaðarinn er oft með
áberandi samsíða, aflöngum, bleðlóttum reitum, hornréttum á svart
forþalið. Askhirzlur eru margar, smáar, flatar, svartar, 0,2-0,5 mm
í þvermál, oft strendar, stakar eða nokkrar saman í þyrpingum, í hæð
við þalið eða aðeins niðurgrafnar. Mörg gró í hverjum aski, gróin
eru glær, einhólfa, nær hnöttótt, 3-4 x 3 mm að stærð. Askþekja
grænbrún eða nær brúnsvört, askbeður glær, um 80-110 µm þykkur, glær
eða ljósbrúnn, undirþekja ljós eða brúnleit. Rákareinin vex á
basalti, einkum nokkuð hátt til fjalla. Hún finnst víða um landið,
og er nokkuð algengari en tíglareinin. Hún kemur bæði fyrir á Miðhálendinu
og er einnig á láglendi.
Þalsvörun: K-, C+
rauð, KC+ rauð, P-.
Innihald: Gyrophorinsýra.
Rákarein á kletti við Kelduá á Hraunum 9. september 1993. Efst til hægri mótar fyrir þverrákum eins og eru einkennandi fyrir tegundina.
Hér sjást randrákir rákareinarinnar eins og þær koma fyrir þegar þær eru skýrastar. Þessi vex á steini við Pollholt á Klafastöðum við Grundartanga.
Hér flæða askgró rákareinarinnar út úr opnum aski.