Þal keilusvertunnar
er hrúðurkennt, grænsvart, dökkbrúnt eða nær svart, nokkuð slétt og
ósprungið, með örsmáum dökkum, lítið eitt upphleyptum dílum.
Skjóðurnar eru svartar, gljáandi, lágkeilulaga fremur en hvelfdar,
0,2-0,25 mm í þvermál, með örsmáu opi á toppi keilunnar.
Skjóðuveggir eru svartir ofan til, oft samgrónir svörtum kraganum,
neðri hlutinn glær. Askgróin eru smá, átta í aski,
breið-sporbaugótt, einhólfa, glær, 7-11 ×
5-7 µm að stærð. Keilusvertan vex eingöngu á
sjávarklettum, einkum efst eða rétt ofan við hrúðurkarlabeltið. Hún
finnst á víð og dreif í kring um landið.
.
Myndin af keilusvertu er tekin af sýni sem safnað var árið 1967 á Kaldrananesi við Bjarnarfjörð á Ströndum. Svartar, hnöttóttar bólur sem áberandi eru á myndinni eru skjóður fléttunnar, en í þeim verða askgróin til. Á milli þeirra má greina örsmáa, svarta díla.