Tíglareinin hefur fínlega grátíglótt, hrúðurkennt, reitskipt
þal, sem er dökk
grátt til svart ásýndar. Þalreitir eru smáir, 0,2-0,4 mm í þvermál,
blágráir eða dökk gráir á litinn, með áberandi svart forþal á milli.
Jaðarinn sker sig lítið úr, aflangir randstæðir þalreitir ekki
áberandi eins og á rákareininni. Askhirzlur eru margar, fremur smáar, svartar, 0,3-0,7 mm í
þvermál, oft með mörgum lautum á yfirborðinu og lítið eitt ljósari
rönd utan með. Gróin eru mörg í hverjum aski, glær, einhólfa, nær
hnöttótt, 3-4 x 3 µm að stærð. Askþekja brúnsvört til grænsvört,
askbeður 65-100 µm þykkur, glær eða ljósbrúnn, undirþekja brún eða
ljós. Tíglareinin vex á basalti og er fremur sjaldgæf, finnst helzt
á Miðhálendinu eða annars staðar hátt til fjalla.
Þalsvörun: K-, C+
rauð, KC+ rauð, P-.
Innihald:
Gyrophorinsýra.
Tíglarein á Eldjárnsstaðabungu við Kjalveg í Austur- Húnavatnssýslu 13. júní 1967.
Hér sést askur tíglareinarinnar fullur af fjölmörgum, örsmáum askgróum.
Hér sjást hin smáu askgró tíglareinarinnar.
Hér er tiglarein af kletti uppi í Hraundal í Loðmundarfirði 20. júlí 2013.