Þalið er hrúðurkennt og myndar gráa, kringlótta bletti, 4-8 sm í
þvermál, í sléttum breiðum af fíngerðum mosa. Það klæðir að utan
hverja grein mosans, og oft einnig sinustrá eða kvisti í sverðinum,
þekur allt með gráum, kornkenndum eða vörtóttum hjúp. Á þalinu
myndast aragrúi af dökkbrúnum, nánast svörtum askhirslum. Þær eru
nokkuð kúptar, 0,5-0,8 mm í þvermál, með ljósgrárri þalrönd á
börmunum. Þær eru oft það þéttar, að 1000 askhirslur geta hæglega
rúmast á þali sem er 4-5 sm í þvermál. Gró rústadyrgjunnar eru
tvíhólda, dökkbrún eða brúngræn. Hún er sérlega algeng á rústum og
túndrumosum hálendisins.
Myndin af rústadyrgju er
tekin á Náttúrufræðistofnun Íslands, Akureyri af sýni frá
Brúaröræfum nærri Hölkná teknu þann 12. ágúst árið 2000.