Stjörnugráma
Physcia stellaris
er ljósgrá blaðflétta sem vex á trjáberki. Jaðarinn er með
margskiptum laufum, bleðlarnir
0,5-1 mm á breidd, fremur sléttir og mattir,
nokkuð aðlægir undirlaginu, engar hraufur.
Neðra borð þalsins er hvítt, með stuttum
rætlingum sem standa ekki út undan hliðunum, engir randstæðir
rætlingar. Askhirzlur eru
ætíð margar, dökk brúnar eða nær svartar með
hvítri eða ljósgrárri þalrönd, 1-2 mm í þvermál,
rísa upp af þalinu á örstuttum stilkum.
Gróin eru átta í hverjum aski, dökk brún,
tvíhólfa, þykkveggja, 18-24 x 9-13 µm að stærð. Askþekjan er brún,
askbeður 70-85 µm, glær, undirþekja glær. Stjörnugráman vex á bolum
og greinum ýmissa trjáa, einkum reyniviði og víði.
Hún er nokkuð algeng á
Suðvesturlandi og Suðurlandi, en annars staðar sjaldgæf.