Þal dílsvertunnar
er hrúðurkennt, dökk grænt eða svargrænt, oftast alsett örsmáum,
kringlóttum, svörtum dílum sem eru langt innan við 0,1 mm að stærð.
Mikið er ætíð einnig af þéttstæðum,
hálfkúlulaga, svörtum skjóðum sem eru um 0,2 mm í þvermál og rísa
hátt upp af þalinu. Skjóðuveggir eru svartir ofan til, glærir neðst,
askgróin eru glær, sporbaugótt, einhólfa, fremur lítil eða 7-10 x
4-5 µm að stærð. Dílsvertan vex á steinum
neðarlega í fjörunni, kemur aðeins upp úr við lágfjöru, og er mikið
innan um grænsvertuna. Hún er fremur sjaldséð, hefur fundizt um
sunnanvert landið frá Snæfellsnesi austur til Hornafjarðar, og
einnig við Eyjafjörð.
Þalsvörun:
K-, C-, KC-, P-.
Innihald:
Engar þekktar fléttusýrur.