Einkennandi fyrir tegundina er þyrping af hvítum eða ljósgráum, stuttum, oft bognum stubbum, alsettum hraufukornum.
Þalið er hrúðurkennt og
reitskipt, þalreitir 0,5-1,5 mm, vörtóttir; þalvörtur 0,2-0,4 mm,
hvítar, kúptar. Hnyðlur eru staðsettar á þalreitunum og milli
þeirra, brúnar, smávörtóttar, 0,2-1 mm í þvermál. Sumir þalreitir
verða að hraufum, grábrúnum á litinn, og upp af þeim vaxa stuttar
þalgreinar þaktar hraufukornum, 2-4 mm á lengd og 0,3-0,8 mm gildar,
uppréttar eða bognar, stundum með dökk brúnar pyttlur eða askhirzlur
í toppinn. Þroskaðar askhirzlur ekki séðar hér á landi.
Hraufustubbar vaxa oftast á basalti eða móbergi. Þeir eru fremur
sjaldgæfir, finnast einkum á Suður- og Vesturlandi.
Þalsvörun:
K+ gul, C-, KC-, P-.
Innihald:
Atranórin, iso-úsninsýra, zeorín.
Myndin af hraufustubbum er tekin á Náttúrufræðistofnun á Akureyri af sýni frá Æsustíg við Örnólfsdal í Borgarfirði, 28. sept. 1986.