Þal barmbryddunnar er hrúðurkennt og samanstendur af litlum, grágrænum, flötum bleðlum sem eru aðeins 0,2-0,8 mm í þvermál, og stórum skálarlaga askhirzlum. Bleðlar ýmist stakir og meir eða minna aðskildir, eða í þéttum þyrpingum og mynda þá nokkurn veginn samfellt þal. Askhirzlur alltaf til staðar, dökkbrúnar, 2-5 mm í þvermál, áberandi íhvolfar með útstæðum barmi sem er alsettur smábleðlum. Ef vel er að gáð má greina örsmáar, blásvartar hnyðlur á milli þalbleðlanna. Askarnir eru með átta, glærum, einhólfa, þykkveggja, sporöskjulaga og vörtóttum gróum sem eru 17-22 x 7,5-11 mikron að stærð. Askþekjan er brún, askbeðurinn 90-120 µm þykkur, glær, undirþekjan glær.
Barmbryddan vex á gróinni jörð, oft yfir mosum. Hún er mjög algeng um allt land, bæði á láglendi og hátt til fjalla.
Þalsvörun: K-, C-, KC-, P-.
Innihald: Engar fléttusýrur, eða lítið eitt af porphyrilínsýru.
Barmbrydda á Spákonufellsborg á Skagaströnd 26. júlí 1987.
Barmbrydda frá Þórðarstöðum í Fnjóskadal í maí 2011.
Askgró barmbryddunnar eru vörtótt, heldur stærri en á koparbryddu.