Þal flannaskófar er stórt,
bleðlar ávalir, 3-6 sm breiðir, jaðarinn uppbrettur. Efra borðið er
fagurgrænt í vætu en grágrænt eða grábrúnt í þurrki, alsett dökkum,
blágrænum eða svörtum, eins til tveggja mm stórum hnyðlum sem eru
dreifðar sem dökkir dílar um allt efra borð skófarinnar. Yfirborð
skófarinnar er annars slétt, jafnvel ofurlítil gljáandi, með
örstuttri loðnu út við jaðarinn. Neðra borðið er ljósbrúnt
meðfram jaðrinum, dökk brúnt eða nær svart nær miðju, engar skýrar
æðar en stundum með ljósa eða gráleita bletti við útjaðar dökka
miðsvæðisins. Rætlingar ekki áberandi, vantar oft á stórum svæðum
neðra borðs, og þalið er fremur lauslega fest við undirlagið.
Askhirzlur eru stórar, 7-18 mm í þvermál, rauðbrúnar að ofan
en með barkarlag sem er rofið af þröngum sprungum á neðra borði.
Askgróin eru glær, aflöng, gerð af fjórum frumum, um það bil tífalt
lengri en breið.
Flannaskófin má heita algeng
um allt land, þó í mun minna mæli en dílaskóf. Hún vex yfir mosa á
grónum jarðvegi í mólendi, á engjum og í fjallshlíðum upp að 1000 m
hæð. Hún er auðþekkt frá flestum öðrum skófum á dílunum á efra
borði, nema dílaskóf (sjá ??) og bretaskóf (Peltigera
britannica) sem einnig hafa
sams konar díla. Bretaskófin er helst greind á
hnyðlunum, sem eru lausari frá þalinu en á hinum skófunum.
Þalsvörun:
K+ gulbrún, C-, KC-, P-.
Innihald:
Tenuiorin og methylgyrófórat, oftast einnig tveir triterpenar, annar
eða báðir.
Flannaskóf í Hrossadal á Vaðlaheiði 27. júní árið 1993. Skófin er hér þurr, og þess vegna kemur græni liturinn lítið fram.