Þal barðaslembrunnar er blaðkennt, allstórt, 3-6 sm í þvermál, nær svart með dökk ólívugrænum blæ, bólgnar verulega í vætu, en skreppur saman í þurrki. Bleðlarnir eru 2-5 mm breiðir, oftast með áberandi hryggjum eftir endilöngu, sem líkjast aukableðlum sem rísa upp á rönd upp af láréttu bleðlunum. Jaðarbleðlarnir þykkari í endann. Askhirzlur venjulega til staðar, 2-4 mm í þvermál, brúnar eða rauðbrúnar, með dökka, skörðótta eða hreistraða þalrönd. Askarnir hafa átta gró, gróin eru 23-32 x 10-15 míkrón, marghólfa múrskipt, glær eða dauft gulbrún. Þörungarnir eru blágrænir af ættkvíslinni Nostoc.
Barðaslembra vex mest yfir mosum á móbergsveggjum þar sem væta seitlar niður öðru hverju. Einnig finnst hún stundum á mosa grónum jarðvegi þar sem raki er. Hún er nokkuð algeng á berggöngum meðfram ströndinni á Suður- og Vesturlandi, sjaldgæfari á Norðurlandi.
Þalsvörun: K-, C-, KC-, P-.
Innihald: Engar fléttusýrur þekktar.