Flóra Íslands - Fléttur
Geitanafli
Umbilicaria proboscidea
er ein af þrem
algengustu geitaskófum á Íslandi. Hinar eru skeggnafli og
sáldnafli. Geitanaflinn þekkist bezt á upphleyptum, ljósum nafla í
miðju skófarinnar yfir naflastrengnum. Askhirzlurnar eru svartar og
uppvafðar eins og snúður. Geitanaflinn vex ætíð á grjóti eins
og aðrar geitaskófir.
Um geitanaflann segir Eggert Ólafsson í Lachanologíu:
"Geitaskóf víkur mest frá grösum að allri ásýnd og skapnaði, því hún
er kringlótt og biksvört, oftast að lit svo óséleg, að enginn maður
skyldi ætla hún væri manna matur, en um hana má vel segja, að hér
verði oss Íslendingum brauð af steinum því hún vex einasta á hörðum
klettum. Hún gefur sæta og saðningsama fæðu, álíka sem fjallagrös,
hleypur við suðuna og rennur í lím sem þau. Tilbúningurinn er þessi:
Mosi þessi er uppþveginn, afvatnaður, saxaður, soðinn í vatni eða
drykkjarblöndu, verður sá grautur samfelldur, sætur og vel nærandi,
þó betri úr mjólk. Stundum seyðist hún smátt söxuð með sjóblendnu
vatni og lítilli mjólk, þar til vel hlaupin í köku og þykk er orðin,
síðan er allt látið kólna, og skorið í sneiðar í pottinum. Af
þessari köku er tekið nokkuð í hvert sinn, og látið í mála mjólk nær
flóað er, rennur sneiðin þar í sundur og gjörir mjólkina við
lifrauða, þykkva og sæta, og er hún með þessu móti til saðningar
höfð og sælgætis í Breiðafjarðardölum. Af sama hlaupi eða lími má
deig gjöra og brauð, með eplahveiti eða kornsúrna mjöli. Geitaskóf
er þar til betri en fjallagrös. Eins má það hlaup til brauðgerðar
brúka af næpum eða öðru rótar aldini".
Geitanafli á kletti við
Efranesvatn á Skagaheiði 16. júlí 1990.