Þal hreisturslembrunnar er nokkuð stórt, 3-6 mm í þvermál, bleðlar þunnir, ávalir, oft 1-2 sm á breidd, efra borð alsett uppréttum, flötum og kringlóttum, misstórum, laufkenndum snepum sem geta orðið 0,3-0,4 mm í þvermál. Þalið drekkur mjög í sig vatn í vætu og bólgnar út, en verður að þunnu skæni í þurrki. Askhirzlur eru ekki þekktar hér á landi. Hreisturslembra vex á mosum utan í rökum móbergs- eða basalt-klettum, eða á berum klöppum sem oft eru votar. Algeng um allt land, en lítið á hálendinu.
Þalsvörun: K-, C-, KC-, P-.
Innihald: Engar fléttursýrur þekktar.