Þal hosuslembrunnar er fremur smávaxið, 2-3 sm í þvermál, svart eða brúnleitt með grágrænum blæ. Bleðlar eru 2-5 mm á breidd, djúpt íhvolfir eða hosulaga, jaðarinn hrokkinn og innbeygður. Efra borð er vörtótt-snepótt, snepar 0,2-0,6 mm í þvermál, þeir minni hnöttóttir, en þeir stærri nokkuð aflangir. Askhirzlur eru dökk brúnar eða svartar, um 1 mm í þvermál, íhvolfar í fyrstu en síðar kúptar með sléttum jaðri. Askar hafa 8 gró, gróin eru oftast fjórhólfa, glær, (16) 18-26 (32) x 5-8 míkron að stærð.
Þalsvörun: K-, C-, KC-, P-.
Innihald: Engar fléttusýrur þekktar.
Hosuslembra á Álftanesi á Mýrum 20. júlí 2005 .
Hosuslembra í klettum í gilskoru í Svínadal, Dalasýslu 9. júlí 2013.