Þal
stikiltörgunnar er hrúðurkennt, lítt sýnilegt, að
mestu innan í undirlaginu hvort heldur það er mosi, sina
eða viður. Askhirslur eru margar og áberandi, 1-2 (3) mm í þvermál,
oftast dökkbrúnar, lyfta sér upp líkt og þær standi á stilkum,
oftast óhrímaðar, flatar, þær stærri með bylgjuðum röndum, þalröndin
fremur þunn, hvít eða gráleit. Askþekjan er brún, askbeðurinn glær,
45-55 µm þykkur, undirþekjan glær. Askgróin eru glær, sporbaugótt,
einhólfa, 9-13 × 4-5,5 µm að stærð. Stikiltargan vex einkum á mosum
eða sinu utan í börðum og klettum við
sjávarsíðuna, einnig á rekaviði. Líklega er
hún algeng meðfram ströndinni hringinn í kring um landið.
Hún líkist mjög þeirri tegund sem áður gekk undir nafninu Lecanora
hagenii, og var jafnan greind til þeirrar tegundar. Lecanora hagenii
er einnig mjög algeng en er ekki bundin við sjávarsíðuna og óx oft á
torfi gömlu bæjanna í sveitum landsins.
Myndin af stikiltörgu er tekin af sýni frá
Selatanga á Skaga, sem safnað var 7. júní 1967.