Flóra Íslands - Byrkningar

A B D E F G H I J K L M

 

N O P R S T U V Þ Æ


Álftalaukur
Beitieski
Burstajafni
Dílaburkni
Dvergtungljurt
Eski
Fergin
Fjallaliðfætla
Fjöllaufungur
Hlíðaburkni
Keilutungljurt
Klettaburkni
Klóelfting
Köldugras
Lensutungljurt
Liðfætla
Litunarjafni
Lyngjafni
Mánajurt
Mosaburkni
Mosajafni
Mýrelfting
Naðurtunga
Skeggburkni
Skjaldburkni
Skollafingur
Skollakambur
Skógelfting
Stóriburkni
Svartburkni
Tófugras
Tungljurt
Tunguskollakambur
Vallelfting
Þríhyrnuburkni
Þrílaufungur
Þúsundblaðarós

Skollafingur

Huperzia selago

er af jafnaætt og er algengur á Norðurlandi og Vesturlandi austur að Ölfusá. Ekki er vitað um hann á Suðurlandi milli Ölfusár og Markarfljóts, og hann virðist fremur sjaldgæfur frá Markarfljóti að Skeiðará. Þar fyrir austan og á Austfjörðum er hann víða. Á austanverðu Norðurlandi vantar hann inn til landsins og á öræfunum, eða er þar sjaldgæfur. Til fjalla fer hann víða yfir 1000 metra hæð. Hæst hefur hann fundist í 1200 m hæð í Litlahnjúk við Svarfaðardal og Hólabyrðu við Hjaltadal. Á sunnanverðu landinu er hann stundum í hraunsprungum á láglendi, og þá oft stórvaxinn.  Hann ber smáar gróhirzlur í blaðöxlum, en æxlikorn eru á ofanverðum greinunum, sem standa eins og misfellur út úr hliðum sprotanna. Skollafingri er skipt í tvær deilitegundir, ssp. arctica með æxlikornum áberandi niður eftir öllum stöngli (sbr. efri myndina), og ssp. selago sem hefur æxlikorn aðeins efst á stöngulendunum (sbr. neðri  myndina). Þessar deilitegundir eru í seinni tíð oft taldar sjálfstæðar tegundir.   

Skollafingurinn er fjölær jurt sem myndar toppa af uppsveigðum sprotum sem líkjast fingrum og rísa upp af stuttum, láréttum jarðstöngli. Sprotarnir eru kvíslgreindir, þ.e. skiptast í jafnþykkar og álíka langar greinar. Þeir eru um 5-15 sm á  hæð, þétt settir oddmjóum, sverðlaga, 6-10 mm löngum, gljáandi blöðum. Ofanvert á stönglinum bera blöðin hvert fyrir sig eina, nýrlaga gróhirzlu í blaðöxlinni en eru að öðru leyti ekki frábrugðin neðri blöðunum sem ekki bera gróhirzlur. Oft má greina smámisfellur á sprotunum ofanverðum, sem stafa af flatvöxnum æxliknöppum sem rísa þvert út frá þeim og bera nær oddlaus, breiðari blöð. Æxliknapparnir losna auðveldlega frá plöntunni, skjóta rótum og vaxa upp og verða að nýrri plöntu.

Skollafingur er fremur auðþekktur frá öðrum jöfnum, líkist þó helzt lyngjafna. Hann þekkist líklega bezt á hinum stuttu jarðlægu sprotum með uppréttum, gildum greinum; lyngjafninn hefur ætíð langar, jarðlægar renglur og uppréttu greinarnar eru grennri. Einnig má greina skollafingur á því, að blöðin sem bera gróhirzlurnar eru eins og hin, og eru jafndreifð um efri hluta stöngulsins, en gróblöð lyngjafnans eru þétt saman í afmörkuðu gróaxi á stöngulendanum og ólík í lögun.

 

Skollafingur inni í Víkurbotni við Breiðuvík í Vestur-Barðastrandarsýslu sumarið 1985. Hér eru æxlikorn áberandi, eins og einkennandi er fyrir deilitegundina subsp. arctica.

 

Skollafingur í mynni Torfdals í Ísafirði í júlí 2005. Hér sjást æxlikorn aðeins efst á sprotunum, eins og einkennandi er fyrir deilitegundina subsp. selago