Uppréttir stönglar vallelftingarinnar vaxa upp af láréttum, svörtum jarðstöngli. Grænu sprotarnir eru 12-45 sm á lengd. Stönglarnir eru gáraðir og ofantil alsettir örsmáum kísilbroddum eftir gárunum. Slíðrin eru með 10-18 svörtum tönnum og jafnmörgum, kransstæðum greinum. Greinarnar eru grannar, láréttar eða niðurbeygðar, að mestu hvassþrístrendar með djúpum grópum, oft ferstrendar næst stofninum, nær alltaf ógreindar. Grókólfar eru með 8-18 mm löngu gróaxi í toppinn í fyrstu oft fölmóleitir, en verða fljótt grænir og greinast síðar, jafnvel áður en gróin þroskast.