verður að teljast fremur sjaldgæf á
Íslandi, þótt hún sé miklu víðar en mánajurt, þekkt frá um 85-90
fundarstöðum á víð og dreif um landið. Hennar var fyrst getið af Rostrup
árið 1887, og var getið í 1. útg. Flóru Íslands um
aldamótin 1900, en þá aðeins þekkt frá einum stað. Hún er algengust í
Eyjafjarðar- og Suður-Þingeyjarsýslum. Venjulega er afar lítið af henni
á hverjum fundarstað, oft einn toppur eða fáar plöntur. Flestir
fundarstaðir eru frá láglendi upp í 450 m hæð. Hæsti
fundarstaður er í 750 m hæð sunnan í Skessuhrygg í Höfðahverfi. Vex
helzt í ýmis konar graslendi, oft í mögru og snöggu graslendi, en kemur
einnig fyrir í frjósömum jarðvegi. Ekki ósjaldan í sendum jarðvegi á
sjávarkömbum eða í fjöru. Hefur einnig fundizt í snjódældum, lyngmóum og
mosaþembu.
Sproti lensutungljurtar er 5-15 sm
hár, gulgrænn á litinn, gróbæri blaðhlutinn marggreindur með klasa af
hnöttóttum gróhirzlum sem opnast með þverrifu í toppinn við þroskun.
Tillífunarhluti blaðsins er fjaðraður, þríhyrningslaga, oftast breiðari
(1,5-4 sm) en langur (1-3sm) og situr nær alltaf mjög ofarlega, oftast
rétt neðan við gróbæra blaðhlutann. Blaðpörin eru aðeins 2-4, smáblöðin
eru venjulega langegglaga eða lensulaga, 7-25 mm löng, en 2-10 mm breið,
djúpfjaðurskipt eða tennt, þau stærri oftast með 4 skerðingum hvoru
megin.
Lensutungljurtin þekkist bezt frá öðrum tungljurtum á hinum löngu og mjóu, reglulega fjaðurskiptum smáblöðum, og á því hversu ofarlega blaðkan situr á stönglinum.
Lensutungljurt í fjörukambinum í Vöðlavík á Austfjörðum 23. júlí 1991.
Hér má sjá sérlega myndarlega lensutungljurt við Bjarnarflag í Mývatnssveit árið 2002.