Upp af örstuttum, uppsveigðum
jarðstöngli klettaburknans vex toppur af fjöðruðum blöðum sem eru 4-12 sm
á lengd og 7-12 mm á breidd. Blaðstilkurinn er oft um þriðjungur af
lengd blaðsins, grópaður, hárlaus, dökkbrúnn og gljáandi nema oft grænn
alveg efst, miðstrengur blaðsins einnig grænn. Hliðarsmáblöðin 8-18 á
hvorri hlið, skakktígullaga, egglaga eða nær kringlótt, á stuttum
stilk, greinilega bogtennt, 4-7 mm á lengd. Gróblettir á neðra borði
smáblaðanna, aflangir, í fyrstu 2-5 á hverju en renna síðan saman í
eitt. Hvítleit, hliðstæð gróhula er sýnileg á yngri gróblettum, en hverfur
fljótlega við þroskun.
Klettaburkni líkist mest svartburkna af öðrum íslenzkum burknum. Hann þekkist bezt frá honum á hinum græna miðstreng blaðsins, á svartburkna er hann dökkbrúnn.
Klettaburkni í klettaskoru á Fagurhólsmýri 27. júní 2002.
Klettaburkni á Kvískerjum í Öræfum 27. júní 2002.