Upp af stuttum, uppsveigðum
jarðstöngli svartburknans vex toppur af fjöðruðum, vetrargrænum blöðum
sem eru 5-15 sm á lengd en aðeins 7-12 mm á breidd og sitja þau á stilk
sem getur verið fimmtungur til þriðjungur af heildarlengd blaðsins.
Blaðstilkurinn er dökkbrúnn og gljáandi, hárlaus en ofurlítið grópaður,
og sömuleiðis miðstrengur blaðsins sem er í beinu framhaldi af stilknum.
Hliðarsmáblöðin eru 10-24 á hvorri hlið, egglaga eða sporbaugótt, nánast
stilklaus, ofurlítið tennt, 4-5 mm á lengd. Gróblettir eru á neðra borði
smáblaðanna, aflangir, fjórir til átta í tveim röðum sitt hvoru megin á
hverju smáblaði. Hvítleit, himnukennd gróhula er fest til hliðar á
hverjum gróbletti, vel þroskuð og stendur lengi eftir að gróin þroskast.
Svartburkni var fyrst greindur með
vissu hér á landi árið 1961, en Hálfdán Björnsson hafði fundið hann í
Skaftafelli nokkrum árum áður.
Síðar hefur hann fundizt á tveim stöðum undir
Eyjafjöllum. Mest virðist vera af honum í Núpakoti undir Eyjafjöllum,
þar sem hann vex á 200-250 m löngu svæði meðfram klettunum.Ýmislegt
bendir þó til þess, að Axel Mörch hafi safnað svartburkna í Búðahrauni
árið 1821, en engin eintök eru til í söfnum sem staðfesta það.
Svartburkni hefur heldur ekki fundizt síðar í Búðahrauni, þótt leitað
hafi verið að honum. Svartburkninn vex einkum í klettaskorum eða
skuggsælum rifum, utan í bröttum eða þverhnýptum klettum eða jafnvel
neðan á hellisloftum. Hann getur bæði verið á allþurrum stöðum móti sól,
eða nokkrum raka í hálfskugga. Fundarstaðir svartburknans eru frá
láglendi upp í 160 m hæð. Á Núpakoti gæti hann þó vel náð miklu hærra
upp í Núpinn án þess að vitað sé, en hann er um 600 m hár.