er lítill, sjaldgæfur burkni af klettaburknaætt. Hún er einkum fundin á sunnanverðu landinu og virðist fylgja nokkuð útbreiðslumynstri liðfætlu. Hún vex í klettaskorum og hraunum eins og liðfætlan, og eru flestir fundarstaðir hennar á láglendi upp að 300 m. Aðeins á tveim stöðum á sunnanverðu hálendinu hefur hún fundizt ofar, í Leppistungum í 500 m hæð, og við Landmannalaugar í 600 m.
Fjallaliðfæltan er um 4-12 sm á hæð. Hún vex upp af stuttum, allgildum jarðstöngli sem ber mikið af oddmjóum, brúnum hreistrum og stilkleifum gamalla, fallinna blaða. Blöðkurnar eru fjaðraðar, á stilk sem oft er stuttur en getur verið þriðjungur eða meira af heildarlengd blaðsins. Stilkurinn og miðstrengur blöðkunnar eru venjulega með mjög strjálum hárum og engum eða örfáum himnukenndum hreistrum. Hliðarsmáblöð blöðkunnar eru 6-15 hvoru megin, snubbótt í endann, 0,3-1 sm á lengd, djúptennt eða fjaðursepótt í 2-3 (4) snubbótta og heilrenda sepa hvoru megin, nánast hárlaus á efra borði, en löng hár á neðra borði sem einkum fylgja gróblettunum. Gróblettir eru oft 1-5 neðan á sepum smáblaðanna, oft illa aðgreindir og renna saman. Gróhula er oftast lítt sýnileg eða leysist upp í hárkennda bleðla.
Fjallaliðfætla er ekki alltaf auðgreind frá venjulegri liðfætlu. Hún er einkum frábrugðin að því leyti að blaðkan er nánast hárlaus á efra borði, blaðstilkar og miðstrengur með afar strjálum hárum og hreistrum ef nokkrum. Einnig greinist blaðkan minna, hliðarsmáblöðin eru hlutfallslega styttri og með færri sepum til hliðanna. Þá má einnig nefna að hliðarsmáblöð fjallaliðfætlunnar eru jafnari á lengd yfir mestan part blöðkunnar, og því eru útlínur hennar nánast samsíða langa leið, en mjókka þó heldur neðst og í oddinn. Kynblöndun mun geta átt sér stað milli þessara tegunda, en hún hefur ekki verið staðfest hér á landi.