Álftalaukurinn hefur örstuttan, tiltölulega gildan (0,5-1 sm), skífulagan stöngul með þéttri hvirfingu af uppréttum, fremur stinnum og striklaga blöðum. Blöðin eru jafnbreið fram þar til þau grennast rétt við oddinn, 5-12 sm löng. Blöðin eru stinnari en á álftalauk. Í þversniði má sjá að fjögur lofthólf liggja eftir endilöngum blöðunum. Í blaðfætinum eru gróhirzlur, ytri blöðin hafa stórgró sem eru um 0,5-0,7 mm í þvermál, með þrem upphleyptum rifjum, fletirnir á milli þeirra eru með óreglulegum og aflöngum vörtum fremur en göddum. Í gróhirzlum innri blaðanna eru mörg, örsmá og ílöng smágró. Öruggasta einkennið til að þekkja álftalauk frá vatnalauk er yfirborð gróanna sem er göddótt á álftalauk, en fremur vörtótt/netstrengjótt á vatnalauk.