Sproti keilutungljurtar er um 5-30 sm langur upp af stuttum, lóðréttum jarðstöngli. Gróbæri blaðhlutinn er oft sérlega grófur og kröftugur miðað við hinn, getur verið allt að 10 sm á lengd, hliðargreinar með reglulegu millibili bera klasa af hnöttóttum gróhirzlum, sem opnast með þverrifu í toppinn. Tillífunarhluti blaðsins er oft festur um miðjan stöngul, stundum ofar, en oft töluvert neðar, oft stilklaus eða á stuttum stilk. Hann er fjaðraður, oft með 4-8 pör af öfugkeilulaga smáblöðum, sem oftast eru ekki breiðari en löng, skarast venjulega ekki til hliðanna, heldur er oft bil á milli þeirra. Smáblöðin eru gaffalstrengjótt eins og á venjulegri tungljurt, oft heilrend en stundum með smáskerðingar að framan. Neðsta blaðparið er nokkurn veginn í plani við hin blaðpörin, stendur ekki eins fram og á tungljurtinni.