Liðfætlan er um 7-18 sm á hæð, og vex upp af stuttum
en allgildum jarðstöngli sem ber mikið af oddmjóum, brúnum hreistrum og
stilkleifum gamalla, fallinna blaða. Blöðkurnar eru fjaðraðar, á stilk
sem er frá ¼ til helmingur af heildarlengd blaðsins.
Stilkurinn er alsettur löngum hárum og oddmjóum, flötum
himnukenndum hreistrum. Hliðarsmáblöð blöðkunnar eru 6-15 hvoru megin,
snubbótt í endann, 0,5-1,5 sm á lengd, fjaðurflipótt eða fjaðurskipt í
3-6 snubbótta og oftast ofurlítið tennta flipa hvoru megin, og alsett
aflöngum, smáum, glærum eða ljósbrúnum himnubleðlum og hárum, einkum á
æðastrengjum. Gróblettir eru 2-8 í tveim röðum neðan á flipum
smáblaðanna, gróhula er lítt sýnileg, leysist fljótt upp í hárkennda
bleðla. Miðstrengur blöðkunnar er þétthærður og rauðbrúnflosugur, efra
borð hennar einnig nokkuð loðið.
Venjulega má auðveldlega þekkja liðfætlu frá flestum öðrum íslenzkum burknum, einkum á því hversu blaðka hennar er öll loðin og alsett himnukenndum hreistrum. Aðgreining frá fjallaliðfætlu getur þó verið vandasöm, og vísast til hennar varðandi aðgreiningu.