Flóra Íslands - Byrkningar
Naðurtunga
Ophioglossum azoricum
er sjaldgæf jurt á
Íslandi af naðurtunguætt, og vex eingöngu þar sem jarðhiti er. Hún
getur bæði verið ein sér í leirkenndum, volgum jarðvegi eða innan um
annan jarðhitagróður. Einnig getur hún vaxið utan í grasi vöxnum
laugarbökkum eða volgum lækjarbökkum. Þar sem naður-tungan er bundin
jarðhitanum, hefur hæð yfir sjávarmáli lítil áhrif. Hún vex hæst í 1180
m hæð á jarðhitasvæði inni í Öskju.
Naðurtungan hefur örstuttan, uppréttan jarðstöngul með
einu til þremur, sjaldan fleiri, tvískiptum blöðum sem teygja sig upp úr
sverðinum. Neðsti hluti blaðanna er hvítleitur stilkur sem er á kafi í
sverðinum, en efri hlutinn er grænn og stendur aðeins 2-5 sm upp úr
jörðu. Græna blaðkan er heilrend, netstrengjótt, oddbaugótt, oftast
ofurlítið íhvolf eða hálfsamanbrotin, 1-3 sm á lengd, 5-10 mm á breidd.
Gróbæri hluti blaðsins er með einu, einhliða gróaxi sem situr á allöngum
stilk, og sitja gróhirzlurnar allmargar þétt saman í tveim, 7-20 mm
löngum röðum öðrum megin á gróaxinu.
Naðurtunga utan
í bakka volga lækjarins í Nauthaga í Þjórsárverum árið 1984.
Naðurtunga í
Jarðbaðshólum í Mývatnssveit árið 1996.