er fremur
smávaxinn burkni af köldugrasætt með sígræn blöð. Það er nokkuð algengt
um vestanvert og sunnanvert landið og norður fyrir Reyðarfjörð á
Austfjörðum. Það fylgir nokkuð úthafsloftslaginu, líklega vegna mildari
vetra, en er afar sjaldgæft á Norðurlandi, einkum inn til landsins. Það
vex einkum í sprungum á klettaveggjum, og haldast blöðin græn allan
veturinn og fram á vor. Langflestir fundarstaðir köldugrassins eru á
láglendi undir 300 m hæð yfir sjó. Hæstu skráðu fundarstaðir eru í 570 m
hæð við Veiðivötn (Eyþ.Ein.) og í Mýrdalsfjöllum (a.m.k. 400 m,
Eyþ.Ein.).
Köldugrasið hefur sterklegan,
láréttan jarðstöngul, 5-10 mm á þykkt, þéttsettan brúnum, oddmjóum
hreistrum. Blöðin standa upprétt upp af jarðstönglinum, öll af sömu
gerð. Blaðkan er 5-20 sm á lengd, vetrargræn, hárlaus,
fjaðurskipt, aflöng-þríhyrnd í lögun, með 6-17 nær heilrendum eða
fínlega bogtenntum bleðlum hvorum megin, og einum endableðli. Blaðkan
situr á allöngum stilk, sem getur verið lengri en blaðkan, en oft
hlutfallslega styttri á stórvöxnum blöðkum. Bleðlarnir eru 1,5-3 sm á lengd
og 4-9 mm á breidd, ávalir í endann, þeir neðstu lengstir en styttast
smátt og smátt út að oddi blöðkunnar. Neðra borð bleðlanna er með tveim
röðum af gróblettum, sem við þroskun geta runnið nærri saman og myndað
samfellda línu af gróhirzlum; gróhulu vantar. Hlykkjóttur, dökkur
miðstrengur er áberandi á neðra borði hliðarbleðlanna.
Köldugrasið er nokkuð auðþekkt frá
öðrum burknum á blaðgerðinni, mjóþrístrendri blöðku með nær heilrendum,
óskiptum bleðlum hvorum megin.