Flóra Íslands - Byrkningar
Fjöllaufungur
Athyrium filix-femina
er stórvaxinn
burkni af klettaburknaætt, sem einkum vex í hraunsprungum eða sem stóð í
bröttum brekkum. Hann er fremur sjaldgæfur, algengastur á
Suðvesturlandi og Vestfjörðum.
Fjöllaufungur er um 30-80 sm á hæð. Jarðstöngullinn er stuttur, alsettur
dökkbrúnum, aflöngum, oddmjóum hreisturblöðum. Upp af honum vaxa stórar,
uppréttar, tvífjaðraðar eða tvíhálffjaðraðar blöðkur á alllöngum stilk
sem getur verið fjórðungur til þriðjungur af heildarlengd blaðsins.
Stilkurinn er með brúnum hreistrum sem eru stærstar og mest áberandi
neðst, en ná oft lang upp eftir. Hliðarsmáblöðin eru 3-12 sm á lengd og
1,5-3 sm á breidd, mjókka út í odd í endann en nokkuð jafnbreið næst
miðstreng blöðkunnar. Smáblöð annarrar gráðu eru djúptennt eða flipótt
langleiðina niður, með 8-14 aflöngum eða hálfmánalaga gróblettum í tveim
röðum á neðra borði. Gróhulan er þunnur leppur sem liggur inn á
gróblettinn frá hlið, nýrlaga eða nær kringlótt.
Fjöllaufungur getur verið nokkuð breytilegur í útliti, einkum að því er
varðar stærð og greiningu blöðkunnar, og litar stilks og miðstrengs
blaðsins. Hann er fremur auðþekktur frá dílaburkna á neðstu
hliðarsmáblöðunum, sem eru áberandi skökk á dílaburkna, þar sem smáblöð
annarrar gráðu sem vísa niður eru miklu stærri en þau sem vísa upp.
Örðugra er að greina fjöllaufung frá stóraburkna, frá honum þekkist hann
á mun meira skertum smáblöðum annarrar gráðu. Einnig má þekkja þessar
tegundir á gróblettunum, sem eru áberandi stórir með miðstæðri gróhulu á
stóraburkna, en aflangir með hliðstæðri gróhulu á fjöllaufungi.
Erfiðast getur þó verið að greina fjöllaufung frá þúsundblaðarós,
og er það tæpast hægt nema plönturnar séu gróbærar
Fjöllaufungur í Búðahrauni á Snæfellsnesi
1967.