Flóra Íslands - Byrkningar

A B D E F G H I J K L M

 

N O P R S T U V Þ Æ


Álftalaukur
Beitieski
Burstajafni
Dílaburkni
Dvergtungljurt
Eski
Fergin
Fjallaliðfætla
Fjöllaufungur
Hlíðaburkni
Keilutungljurt
Klettaburkni
Klóelfting
Köldugras
Lensutungljurt
Liðfætla
Litunarjafni
Lyngjafni
Mánajurt
Mosaburkni
Mosajafni
Mýrelfting
Naðurtunga
Renglutungljurt
Skeggburkni
Skjaldburkni
Skollafingur
Skollakambur
Skorutungljurt
Skógelfting
Stóriburkni
Svartburkni
Tófugras
Tungljurt
Tunguskollakambur
Vallelfting
Vatnalaukur
Þríhyrnuburkni
Þrílaufungur
Þúsundblaðarós

Skollakambur

Blechnum spicant

er burkni sem er sjaldgæfur á Íslandi.  Hann vex eingöngu á láglendum svæðum (mest neðan 200 m) þar sem snjóþyngsli eru mjög mikil.  Til dæmis er hann með algengari burknum í Héðinsfirði.  Hann vex einnig á Ólafsfirði, Siglufirði, í Fjörðum og sums staðar á Vestfjörðum.  Gróbæru blöðin eru frábrugðin tillífunarblöðunum, þau standa upprétt og eru tindótt eins og tvíhliða kambur. Afbrigðið var. fallax, tunguskollakambur, er smávaxið jarðhitaafbrigði og á því eru gróbæru blöðin eins og hin blöðin. Þetta jarðhitaafbrigði er friðað.

Blöð skollakambsins eru veturgræn og vaxa upp af sterklegum en stuttum og gildum jarðstöngli sem er alsettur leifum af gömlum blaðstilkum og brúnum hreistrum. Blöðin eru tvenns konar, í fyrstu vaxa upp stilkstutt, ógróbær tillífunarblöð sem mynda allstóran topp, en síðar vaxa upp úr miðju toppsins hávaxin og stilklöng kambmynduð blöð með gróhirzlum neðan á. Tillífunarblöðin eru 10-30 sm á lengd, fjaðurskipt eða öllu heldur djúpflipótt, því skerðingin nær tæpast alveg niður í gegn, með 30-60 pörum af heilrendum, lítið eitt odddregnum bleðlum með fremur sljóum oddi. Bleðlarnir eru um 1-2 sm á lengd og 2-4 mm á breidd um miðbik blöðkunnar, en styttast mjög bæði út til endans og niður í átt að stilknum, þær neðstu mynda aðeins örstuttar en breiðar blöðkur utan á stilknum. Gróbæru blöðin vantar oft, myndast ekki fyrr en á vel þroskuðum einstaklingum. Þau eru upprétt og hávaxin, 20-50 sm á lengd og getur stilkurinn verið þriðjungur eða helmingur af þeirri lengd, og ríflega það. Gróbæru blöðin eru fjaðurskipt með 25-50 striklaga smáblöðum og góðu bili á milli eins og gisstæðir tindar á kambi eða hrífu. Smáblöðin eru 1-3 sm á lengd og 1-2 mm á breidd um miðjuna þar sem þau eru lengst, en styttast og þéttast í átt að toppnum, og styttast einnig en verða gisstæðari í átt að stilknum. Neðan á smáblöðunum myndast gróblettir sem samfelldar lengjur eftir blaðjöðrunum báðum megin, með samfelldri gróhulu yfir ytri jaðri. Gróhulan opnast síðan við þroskun að innanverðu og myndar rauf eftir endilöngu smáblaðinu en situr áfram með blaðjöðrunum eftir að gróhizlurnar þroskast.

 
 

Skollakambur í Vattardal í Barðastrandasýslu árið 1985. Gróbæru blöðin mynda uppréttan kamb, en hin blöðin eru skástæð með breiðari flipa.

 

Tunguskollakambur við Deildartunguhver í Borgarfirði. Á honum eiga gróbæru blöðin og tillífunarblöðin að vera eins í útliti.