Valgarður Egilsson fann burknann þarna fyrstur um 1960. Þrátt fyrir töluverða leit í nágrenni fundarstaðarins, hefur ekkert fundist af burknanum nema þessar tveir toppar. Afar lítil breyting er sjáanleg á vaxtarstað burknans á þeim 50 árum sem liðin eru frá fundi hans, að því fráskildu að topparnir hafa lítið eitt stækkað. Ekkert er vitað um hversu lengi burkninn hefur vaxið þarna, né heldur hvernig hann muni hafa borizt til landsins. Gömul heimild er til um að skeggburkni hafi áður fundizt á Íslandi og segir þar að Baring-Gould hafi safnað skeggburkna í "Laugardal", og hafi Babington séð eintakið.
Skeggburkninn hefur stuttan, uppsveigðan jarðstöngul með dökkbrúnum hreistrum. Upp frá honum rís þétt þyrping af sígrænum blöðum á löngum stilk. Stilkurinn er ofurlítið grópaður, að mestu grænn og hárlaus, neðst með dökkbrúnu slíðri og örstuttum strjálum kirtilhárum. Blöðin með stilknum eru um 4-10 sm á lengd, óreglulega gaffalgreind, blöðkurnar sjálfar örlitlar, í mesta lagi 2-3 mm á breidd, mjólensulaga eða striklaga, grópaðar að endilöngu, broddyddar. Gróblöðin mynda samfelldan gróblett eftir endilöngu neðra borði blaðsins, sem getur náð 10-20 mm á lengd. Gróhulan er jafnlöng, lengi sýnileg til hliðar við gróblettinn.
Myndin af skeggburkna hér fyrir ofan er tekin í Þýzkalandi árið 1987.
Hér er annar þeirra tveggja skeggburkna sem fundizt hafa á Íslandi, á Hléskógum í Höfðahverfi í sept. árið 1972