Blöð skjaldburknans vaxa í þéttum
toppum upp af stuttum en gildum og sterklegum, uppréttum eða uppsveigðum
jarðstöngli, sem getur verið allt að 2-3 sm í þvermáll með þykku lagi af
leifum af gömlum blaðstilkum fyrri ára. Blöðin eru stuttstilkuð, sígræn
og einfjöðruð, striklensulaga í ummáli, 15-40 sm löng og 2-7 sm á
breidd, með 20-40 pörum af skarptenntum smáblöðum. Smáblöðin eru
skakktígullaga, ofurlítið bogsveigð eða allt að hálfmánalaga, oddmjó,
1-2 sm á lengd og 2-7 mm á breidd, einna lengst um miðju blöðkunnar, en
neðst við blaðstilkinn oft stutt og þríhyrningslaga. Blaðtennurnar eru
hvassyddar. Smáblöðin á efri helmingi blöðkunnar eru venjulega gróbær á
neðra borði, með allt að 15-30 kringlóttum gróblettum í röðum meðfram
endilöngum blaðröndunum. Ljósleit, sterkleg, kringlótt gróhula með
tenntri rönd og djúpri laut í miðju er yfir gróblettunum meðan þeir eru
ungir, en hverfur við þroskun gróhizlnanna. Blaðstilkar og miðstrengur
blaðsins eru oft með himnukenndum, flötum og oddmjóum, brúnum hreistrum,
sem stundum standa mjög þétt. Neðra borð blaðanna er einnig með nokkrum
afar fíngerðum og grönnum hreistrum, en hárlaus.
Skjaldburkninn líkist ekki öðrum
íslenzkum burknum. Honum gæti helzt verið ruglað saman við skollakamb,
en þekkist auðveldlega á hinum skarptenntu hliðarsmáblöðum. Stærð
burknans er afar breytileg eftir vaxtarstöðum, og þéttleiki smáblaðanna
sömuleiðis. Stór eintök hafa oft breið smáblöð sem skarast verulega, en
á öðrum eru smáblöðin gisstæðari með bili á milli.