Flóra Íslands - Byrkningar

A B D E F G H I J K L M

 

N O P R S T U V Þ Æ


Álftalaukur
Beitieski
Burstajafni
Dílaburkni
Dvergtungljurt
Eski
Fergin
Fjallaliðfætla
Fjöllaufungur
Hlíðaburkni
Keilutungljurt
Klettaburkni
Klóelfting
Köldugras
Lensutungljurt
Liðfætla
Litunarjafni
Lyngjafni
Mánajurt
Mosaburkni
Mosajafni
Mýrelfting
Naðurtunga
Renglutungljurt
Skeggburkni
Skjaldburkni
Skollafingur
Skollakambur
Skorutungljurt
Skógelfting
Stóriburkni
Svartburkni
Tófugras
Tungljurt
Tunguskollakambur
Vallelfting
Vatnalaukur
Þríhyrnuburkni
Þrílaufungur
Þúsundblaðarós

Skjaldburkni

Polystichum lonchitis

eða uxatunga er af skjaldburknaætt og vex víða um land þar sem snjóþungt er, en getur ekki talizt algengur. Hann vex einkum í djúpum lautum, skorningum, giljum og undir bökkum á snjóþungum svæðum. Einnig vex hann oft í skóglendi á Vestfjörðum, og mjög gjarnan í stórgrýtisurðum og milli steina í framhlaupum til fjalla á Norður- og Austurlandi. Einnig vex hann stundum í gjám og hraunsprungum. Á útbreiðslukortinu má glöggt sjá hversu vel skjaldburkninn fylgir snjóþungum svæðum kring um landið. Hann er algengastur á Vestfjörðum og í hinum snjóþungu útsveitum á Norðurlandi og nyrðri hluta Austfjarða, en á syðri hluta Austfjarða og vestur í Borgarfirði er hann meira inn til dala þar sem snjór helzt lengur en við sjávarsíðuna. Hann finnst frá láglendi upp í 5-600 m hæð. Hæst fundinn í 700 m hæð í botni Seljadals við Hörgárdalsheiði á Tröllaskaga.

 

Blöð skjaldburknans vaxa í þéttum toppum upp af stuttum en gildum og sterklegum, uppréttum eða uppsveigðum jarðstöngli, sem getur verið allt að 2-3 sm í þvermáll með þykku lagi af leifum af gömlum blaðstilkum fyrri ára. Blöðin eru stuttstilkuð, sígræn og einfjöðruð, striklensulaga í ummáli, 15-40 sm löng og 2-7 sm á breidd, með 20-40 pörum af skarptenntum smáblöðum. Smáblöðin eru skakktígullaga, ofurlítið bogsveigð eða allt að hálfmánalaga, oddmjó, 1-2 sm á lengd og 2-7 mm á breidd, einna lengst um miðju blöðkunnar, en neðst við blaðstilkinn oft stutt og þríhyrningslaga. Blaðtennurnar eru hvassyddar. Smáblöðin á efri helmingi blöðkunnar eru venjulega gróbær á neðra borði, með allt að 15-30 kringlóttum gróblettum í röðum meðfram endilöngum blaðröndunum. Ljósleit, sterkleg, kringlótt gróhula með tenntri rönd og djúpri laut í miðju er yfir gróblettunum meðan þeir eru ungir, en hverfur við þroskun gróhizlnanna. Blaðstilkar og miðstrengur blaðsins eru oft með himnukenndum, flötum og oddmjóum, brúnum hreistrum, sem stundum standa mjög þétt. Neðra borð blaðanna er einnig með nokkrum afar fíngerðum og grönnum hreistrum, en hárlaus.

Skjaldburkninn líkist ekki öðrum íslenzkum burknum. Honum gæti helzt verið ruglað saman við skollakamb, en þekkist auðveldlega á hinum skarptenntu hliðarsmáblöðum. Stærð burknans er afar breytileg eftir vaxtarstöðum, og þéttleiki smáblaðanna sömuleiðis. Stór eintök hafa oft breið smáblöð sem skarast verulega, en á öðrum eru smáblöðin gisstæðari með bili á milli.

 

Skjaldburkni í Dyrfjalladal sumarið 1992.

Skjaldburkni í Unaðsdal á Snæfjallaströnd 11. júlí 2010.