Flóra Íslands - Byrkningar

A B D E F G H I J K L M

 

N O P R S T U V Þ Æ


Álftalaukur
Beitieski
Burstajafni
Dílaburkni
Dvergtungljurt
Eski
Fergin
Fjallaliðfætla
Fjöllaufungur
Hlíðaburkni
Keilutungljurt
Klettaburkni
Klóelfting
Köldugras
Lensutungljurt
Liðfætla
Litunarjafni
Lyngjafni
Mánajurt
Mosaburkni
Mosajafni
Mýrelfting
Naðurtunga
Renglutungljurt
Skeggburkni
Skjaldburkni
Skollafingur
Skollakambur
Skorutungljurt
Skógelfting
Stóriburkni
Svartburkni
Tófugras
Tungljurt
Tunguskollakambur
Vallelfting
Vatnalaukur
Þríhyrnuburkni
Þrílaufungur
Þúsundblaðarós

Mosaburkni

Hymenophyllum wilsonii

er minnsti burkni landsins og vex á rökum, skuggsælum klettaveggjum.  Hann hefur aðeins fundizt á einum stað á landinu og er friðaður samkvæmt náttúruverndarlögum.

Mosaburkninn vex í Deildarárgili í Mýrdal. Hann vex á mosagrónum móbergskletti í djúpu gili á fremur skuggsælum stað og við afar háan loftraka. Hann er talinn þurfa hafrænt loftslag með háum loftraka og milda vetur. Varla finnst nokkurs staðar á landinu meira úthafsloftslag né mildari vetur en á því svæði sem hann vex í Mýrdalnum. Á síðustu árum hefur hann ekki fundizt aftur á þessum stað, og er því möguleiki á að hann sé þar útdauður, þótt um það verði varla fullyrt. Hins vegar gæti hann auðveldlega leynst víðar undir Eyjafjöllunum eða í Mýrdal þótt ekki sé vitað um það nú, þar sem hann er afar smágerður og leynist vel innan um mosann. Vaxtarstaður mosaburknans er í um það bil 30 m hæð yfir sjávarmáli.

Mosaburkninn er afar smávaxinn, íslenzk eintök eru aðeins 1,5-3,5 sm á hæð og vaxa út frá skriðulum, greindum, mjög fíngerðum (0,3 mm) jarðstöngli. Blöðin standa upprétt frá jarðstönglinum á stuttum dökkbrúnum stilk. Blaðkan er græn, hárlaus, himnukennd og gegnsæ, enda aðeins eitt frumulag á þykkt. Hún er fjaðurskipt í stakstæða, flipótta bleðla með brúnum miðstrengjum. Hliðarsmáblöðin eru oftast 3-7 hvoru megin á blöðkunni, um 5-7 mm á lengd, með 2-3 snubbóttum blaðflipum sem vísa fram og eru aðeins um 3-4 mm á lengd, gistenntir. Mosaburkninn hefur ekki fundizt gróbær hér á landi. Samkvæmt lýsingum á erlendum eintökum þessa burkna, verður hann oft stórvaxnari þar, eða um 6 sm á hæð eða meira.

Mosaburkninn er auðþekktur frá öllum öðrum íslenzkum burknum, en líkist fljótt á litið fremur ýmsum mosum. Helzt ætti að mega þekkja hann frá mosum á gerð blöðkunnar, með hálffjöðruðum smáblöðum með dökkum miðstreng sem nær alveg út í ávalan enda bleðilsins.

 

 

Myndin er tekin af ræktuðu eintaki  mosaburknans á Líffræðistofnun Háskólans í Reykjavík árið 1984.