Mosaburkninn vex í Deildarárgili í Mýrdal. Hann vex á mosagrónum móbergskletti í djúpu gili á fremur skuggsælum stað og við afar háan loftraka. Hann er talinn þurfa hafrænt loftslag með háum loftraka og milda vetur. Varla finnst nokkurs staðar á landinu meira úthafsloftslag né mildari vetur en á því svæði sem hann vex í Mýrdalnum. Á síðustu árum hefur hann ekki fundizt aftur á þessum stað, og er því möguleiki á að hann sé þar útdauður, þótt um það verði varla fullyrt. Hins vegar gæti hann auðveldlega leynst víðar undir Eyjafjöllunum eða í Mýrdal þótt ekki sé vitað um það nú, þar sem hann er afar smágerður og leynist vel innan um mosann. Vaxtarstaður mosaburknans er í um það bil 30 m hæð yfir sjávarmáli.
Mosaburkninn er afar smávaxinn, íslenzk eintök eru aðeins 1,5-3,5 sm á hæð og vaxa út frá skriðulum, greindum, mjög fíngerðum (0,3 mm) jarðstöngli. Blöðin standa upprétt frá jarðstönglinum á stuttum dökkbrúnum stilk. Blaðkan er græn, hárlaus, himnukennd og gegnsæ, enda aðeins eitt frumulag á þykkt. Hún er fjaðurskipt í stakstæða, flipótta bleðla með brúnum miðstrengjum. Hliðarsmáblöðin eru oftast 3-7 hvoru megin á blöðkunni, um 5-7 mm á lengd, með 2-3 snubbóttum blaðflipum sem vísa fram og eru aðeins um 3-4 mm á lengd, gistenntir. Mosaburkninn hefur ekki fundizt gróbær hér á landi. Samkvæmt lýsingum á erlendum eintökum þessa burkna, verður hann oft stórvaxnari þar, eða um 6 sm á hæð eða meira.
Mosaburkninn er auðþekktur frá öllum öðrum íslenzkum burknum, en líkist fljótt á litið fremur ýmsum mosum. Helzt ætti að mega þekkja hann frá mosum á gerð blöðkunnar, með hálffjöðruðum smáblöðum með dökkum miðstreng sem nær alveg út í ávalan enda bleðilsins.