Skorutungljurt
Botrychium nordicum
er ný tegund
tungljurtar, sem nýlega var uppgötvuð og lýst í tímaritinu Brittonia.
Greinin birtist í desember heftinu 2016. Tegundin hefur enn sem komið er
aðeins fundist í Noregi og á Íslandi. Það var Peter Struck sem fyrstur
fann hana á Íslandi norður við Kaldalón árið 2005, og sendi sýnishorn af
henni ásamt fleiri tungljurtum til Donald R. Farrar,
tungljurtasérfræðings í Bandaríkjunum.
Þessi nýja tungljurt líkist nokkuð venjulegri tungljurt, en hin
tungllaga smáblöð eru áberandi skörðótt að framan, og því gætum við
kallað hana skorutungljurt á íslensku. Annað einkenni hennar er að
stofninn er áberandi hvítur neðst við fótinn og með dökkbrúnni himnu,
líklega leifum af kynliðnum sem er undanfari þess hluta tungljurtarinnar
sem er ofanjarðar, gróliðarins. Smáblaðpörin eru heldur gisnari en á
tungljurt, skarast aðeins lítið eitt. Neðsta blaðparið er í plani við
hin líkt og á keilutungljurt, en rís ekki fram eins og á venjulegri
tungljurt.
Skorutungljurt hefur fundizt á fjórum stöðum á Íslandi í
mismunandi landshlutum. Auk Kaldalóns hefur hún fundizt á Höfn í
Hornafirði, í grennd við Jökulsárlón á Breiðamerkursandi, og á
Þóroddsstöðum í Ólafsfirði.
Skorutungljurt á Þóroddsstöðum í Ólafsfirði.
Neðsti
hluti skorutungljurtar
Smáblaðpör skorutungljurtar nær.