Þríhyrnuburkni hefur láréttan,
skriðulan jarðstöngul þéttsettan brúnum hárum og hreistrum. Upp af
jarðstönglinum vaxa þríhyrndar, ljósgrænar blöðkur á löngum stilk sem er
oft tvöfalt til þrefalt lengri en blaðkan. Stilkurinn er gishærður, og
með töluvert af oddmjóum, brúnum hreistrum, blaðkan er einnig gishærð en
þétthærð á blaðstrengjum. Blaðkan er 5-15 sm löng, og nærri eins breið
neðst, tvífjaðurskipt næst stilknum, smáblöðin lengst neðst en styttast
jafnt að oddinum sem að lokum er flipóttur í endann og vel odddreginn.
Neðsta blaðparið er aðeins úr takti við hin, vísar meira niður á við.
Smáblöð annarrar gráðu eru oft greinilega tennt á neðstu blaðpörum, en
aðeins lítið eitt bugtennt eða heilrend annars staðar. Gróblettir eru
ljósbrúnir, í röðum neðan á blaðröndum smáblaðanna, kringlóttir og án
gróhulu.
Þríhyrnuburkni má heita auðþekktur frá öllum öðrum íslenzkum burknum á hinni skarpþrístrendu lögun blöðkunnar. Eina tegundin sem svipar til hans er þrílaufungur. Hann hefur þó alveg þrískipta blöðku þar sem neðstu hliðarblaðpörin eru alveg sjálfstæð, aðskilin frá hinum og á alllöngum stilk.