Dílaburkni hefur gildan (1-2 sm)
jarðstöngul, þétt settan brúnum hreistrum og gömlum stilkleifum, með
stórum, stilklöngum blöðum 20-80 sm á hæð, þar af stilkurinn oft nær
helmingur af lengdinni. Stilkurinn er með allstórum
(5-10 mm) brúnum hreistrum sem oft eru allþéttar neðan til. Blaðkan
er þrí-
til fjórhálffjöðruð, egglaga eða hálfþríhyrnd í ummáli og dregst fram í
odd. Hliðarsmáblöðin eru skakktígullaga eða nær þríhyrnd, 5-15 sm löng,
mjókka út í oddinn en breiðust (3-7sm) næst miðstrengnum. Smáblöð
annarrar gráðu
eru langþríhyrnd, þau sem vísa niður áberandi stærri en þau
sem vísa upp, einkum áberandi á neðstu blaðpörunum. Smáblöð þriðju gráðu
djúpt fjaðurflipótt með tveim röðum af gróblettum eftir endilöngu neðra
borði, einum við hvern flipa, allt að 7-8 pör saman á stórum blöðkum.
Gróblettirnir
eru kringlóttir, gróhulan hvítleit, hliðstæð, kögurtennt,
hverfur fljótt við gróþroskun, aðeins sýnileg á ungum gróblettum.
Dílaburkni er auðþekktur frá flestum burknum vegna stærðar sinnar, aðeins stóriburkni, fjöllaufungur og þúsundblaðarós geta náð svipaðri stærð. Hann er þó auðþekktur frá þeim öllum á neðstu smáblað-pörunum, sem eru áberandi skökk og langbreiðust neðst við blaðstilkinn. Allar hinar tegundirnar hafa hliðarsmáblöð sem eru tiltölulega jafnbreið á neðri helmingi.