Flóra Íslands - Byrkningar

A B D E F G H I J K L M

 

N O P R S T U V Þ Æ


Álftalaukur
Beitieski
Burstajafni
Dílaburkni
Dvergtungljurt
Eski
Fergin
Fjallaliðfætla
Fjöllaufungur
Hlíðaburkni
Keilutungljurt
Klettaburkni
Klóelfting
Köldugras
Lensutungljurt
Liðfætla
Litunarjafni
Lyngjafni
Mánajurt
Mosaburkni
Mosajafni
Mýrelfting
Naðurtunga
Renglutungljurt
Skeggburkni
Skjaldburkni
Skollafingur
Skollakambur
Skorutungljurt
Skógelfting
Stóriburkni
Svartburkni
Tófugras
Tungljurt
Tunguskollakambur
Vallelfting
Vatnalaukur
Þríhyrnuburkni
Þrílaufungur
Þúsundblaðarós

Eski

Equisetum hyemale

er stinn og hörð, að mestu greinalaus elfting.  Það vex í mólendi, kjarri, melum eða grýttu landi. Eski finnst í öllum landshlutum, en vex víða mjög strjált, einkum þar sem beit er mikil. Það finnst almennt frá láglendi upp í um 600 m hæð, hæst skráð í rúmlega 700 m á miðhálendinu í Fögruhlíð við Langjökul, á Arnarfelli hinu mikla og Laugarfelli við Hofsjökul. Það vex gjarnan í grýttu landi, vindblásnum fjallahlíðum en einnig í skóglendi. Sums staðar þar sem land hefur verið afgirt og friðað til skógræktar hefur því fjölgað mjög og getur myndað allþéttar breiður. Þótt gróft sé er það viðkvæmt fyrir beit.
 

Sprotar eskisins vaxa upp af jarðlægum, svörtum jarðstönglum. Stönglarnir eru nær alltaf greinalausir, liðskiptir, sígrænir, með áberandi slíðrum sem eru niðurmjó með misbreiðu, svörtu belti neðst, slíðurtennur allt að 20 talsins, jafnbreiðar fram, ljósgráar, þverstífðar og svartar í endann, visna og falla fljótt af. Stöngullinn er allgildur (4-6 mm), ofurlítið gáraður, með röðum af kísiltönnum sem gera hann hrjúfan. Hliðargreinar geta stöku sinnum orðið til á særðum stönglum eða í toppi gamalla stofna. Gróöx myndast efst á  grænum sprotum, svört með mjóum broddi í toppinn.

Dæmigert eski er auðþekkt frá öðrum elftingum nema helzt eskibróður (sbr. beitieski). Hann greinist einkum frá eski á grennra vaxtarlagi, miklu þrengra miðholi í stönglinum, og á sérlega löngum og grönnum slíðurtönnum á yngstu (efstu) stöngul­slíðrunum, en eldri slíðrin líkjast hins vegar slíðrum eskisins.

 

Hér eru tvær plöntur af eski í Drangavík á Ströndum árið 1984.

 

Hér sjáum við efri hluta eskis með gróaxi í toppinn. Myndin er tekin í Grundarkoti í Héðinsfirði 23. júní árið 1991.

 

Hér sjáum við nærmynd af stöngulslíðri eskisins í Ólafsfjarðarmúla 20. júní 2006.