Flóra Íslands - Byrkningar

A B D E F G H I J K L M

 

N O P R S T U V Þ Æ


Álftalaukur
Beitieski
Burstajafni
Dílaburkni
Dvergtungljurt
Eski
Fergin
Fjallaliðfætla
Fjöllaufungur
Hlíðaburkni
Keilutungljurt
Klettaburkni
Klóelfting
Köldugras
Lensutungljurt
Liðfætla
Litunarjafni
Lyngjafni
Mánajurt
Mosaburkni
Mosajafni
Mýrelfting
Naðurtunga
Renglutungljurt
Skeggburkni
Skjaldburkni
Skollafingur
Skollakambur
Skorutungljurt
Skógelfting
Stóriburkni
Svartburkni
Tófugras
Tungljurt
Tunguskollakambur
Vallelfting
Vatnalaukur
Þríhyrnuburkni
Þrílaufungur
Þúsundblaðarós

Þrílaufungur

Gymnocarpium dryopteris

er fíngerður burkni af klettaburknaætt með þrískiptri blöðku, sem vex undir kjarri, í gjótum og skorningum og öðrum skuggsælum stöðum.  Hann er algengur á Vesturlandi, í útsveitum Miðnorðurlands og á Austfjörðum, fremur fátíður annars staðar. Þrílaufungur finnst nær eingöngu á láglendi neðan 300 m hæðar. Aðeins á þrem stöðum hefur hann fundizt í 400-440 m, í Karlsdrætti við Hvítárvatn, og í hólmum í Úlfsvatni, Friðmundarvatni vestara og Eyjavatni á Auðkúluheiði. Trúlega hefur hann verið útbreiddari á neðri hluta hálendisins á meðan kjarrgróður var þar ríkjandi, en með vaxandi beit hefur hann ekki haldizt við nema í hólmum þar sem lyng- og kjarrgróður hélzt lengur við.

Þrílaufungur hefur grannan (1-2 mm), láréttan, alllangan jarðstöngul með afar grönnum og fíngerðum, oftast dökkum, alllöngum (5-20 sm) blaðstilkum. Blaðkan er tví- til þrífjöðruð, nálega þríhyrnd í lögun, oft lítið eitt breiðari (4-17 sm) en löng (3-14 sm). Neðstu hliðarsmáblöðin eru miklu stærri og breiðari en hin, þríhyrnd í ummáli og nærri jafn stór og öll hin til samans, stilklöng, svo fljótt á litið virðist blaðkan þrífingruð með þrem stilklöngum smáblöðum. Blaðkan er nánast hárlaus eða með afar strjálum kirtilhárum, stundum örfáar brúnleitar, himnukenndar hreistrur neðst á stilknum. Smáblöð annarrar gráðu eru fjöðruð eða fjaðurskipt með ávölum enda- og hliðartönnum. Gróblettirnir eru smáir, kringlóttir, randstæðir neðan á hliðarbleðlum smáblaðanna, gróhulu vantar.

Þrílaufungur er fremur auðþekktur frá flestum öðrum burknum á hinni stuttu og breiðu, nær þríhyrndri blöðku. Aðeins þríhyrnuburkni hefur svipaða blöðkulögun, en frá honum þekkist þrílaufungur á hinni greinilegur þrískiptingu blöðkunnar í þrjá stilkaða blaðhluta.

 

 

Þrílaufungur, myndin tekin árið 1982.

 

Þrílaufungur í Kolgrafarfirði á Snæfellsnesi 9. júlí 2011.