Flóra Íslands - Byrkningar

A B D E F G H I J K L M

 

N O P R S T U V Þ Æ


Álftalaukur
Beitieski
Burstajafni
Dílaburkni
Dvergtungljurt
Eski
Fergin
Fjallaliðfætla
Fjöllaufungur
Hlíðaburkni
Keilutungljurt
Klettaburkni
Klóelfting
Köldugras
Lensutungljurt
Liðfætla
Litunarjafni
Lyngjafni
Mánajurt
Mosaburkni
Mosajafni
Mýrelfting
Naðurtunga
Renglutungljurt
Skeggburkni
Skjaldburkni
Skollafingur
Skollakambur
Skorutungljurt
Skógelfting
Stóriburkni
Svartburkni
Tófugras
Tungljurt
Tunguskollakambur
Vallelfting
Vatnalaukur
Þríhyrnuburkni
Þrílaufungur
Þúsundblaðarós

Litunarjafni

Diphasiastrum alpinum

er af jafnaætt og er nokkuð algengur þar sem hæfilega snjóþungt er,  en finnst ekki á snjóléttum svæðum.  Hann þekkist frá öðrum íslenzkum jöfnum á því hvað blöðin eru aðlæg að stönglinum.

Útbreiðsla litunarjafnans fylgir að jafnaði þeim landshlutum þar sem fremur snjó­þungt er á láglendi. Hann er því algengastur á Norðurlandi, og kýs þar heldur að vera á láglendi í hinum snjóþungu útsveitum en er sjaldséður inn til landsins og þá aðeins hærra upp til fjalla, í 4-500 m hæð. Svipað gildir um Vestfirði og Snæfellsnes norðanvert, en í Borgarfirði og á sunnanverðum Austfjörðum þar sem snjólétt er við sjóinn, velur hann sér að vera inn til dala og heiða. Á Suðurlandi austan Ölfusár er hann mjög sjaldgæfur, ófundinn frá Rangá austur í Hornafjörð. Á miðhálendinu hefur hann aðeins fundizt norðan jökla á Hveravöllum og við Orravatn og er þar mjög sjaldgæfur. Hann fer að jafnaði ekki ofar en 5-600 m, en hæst hefur hann fundizt í um 700 m við Orravatn á Hofsafrétti og á Skessuhrygg í Höfðahverfi við Eyjafjörð. Litunarjafninn vex einkum í snjódældabollum eða gilskorningum þar sem snjóþungt er, oft innan um finnung eða í félagi við skjaldburkna, grámullu og fjallasmára.

Litunarjafninn myndar jarðlæga stöngla sem geta verið 20-50 sm á lengd, með sérlega marggreindum, uppsveigðum 5-15 sm háum sprotum með aðlægum dökkgrænum, aflöngum blöðum. Blöðin eru um 3-5 mm á lengd með sljóum oddi, áberandi kúpt að utan með aðsveigðum jöðrum. Vegna þess hversu blöðin eru aðlæg, virka sprotarnir grennri en á hinum jöfnunum. Sprotarnir bera stundum gróöx sem gerð eru af flötum, breiðfættum, hjarta- eða tígullaga gróblöðum með óreglulega tenntum jaðri. Sprotanir greinast mest ofan til, og bera grósprotarnir því oft þyrpingu af gróöxum, en þeir ógróbæru fá oft blævængslögun vegna þess hversu marggreindir þeir eru.

Litunarjafninn er auðþekktur frá hinum jöfnunum, einkum á hinum aðlægu, breiðu blöðum sem gera sprotana mun grennri, og einnig á hinu blævængsleita vaxtarlagi sprotanna vegna þess hversu mikið þeir greinast ofan til.

 

Litunarjafni í Grænulág við Dalbæ á Snæfjallaströnd 10. júlí 2010.

 

Litunarjafni í Fljótavík árið 1982.