Mosajafninn hefur marggreinda,
uppsveigða, fíngerða, þéttblöðótta stöngla. Hann myndar bæði örstutta (1-2
sm) laufsprota sem haldast grænir að vetrinum, og lengri (3-8 sm)
upprétta sprota sem oft mynda gróax í toppinn en visna síðsumars. Blöðin
eru 2-3 mm á lengd og mjókka jafnt út í hvassan odd, með gisnar tennur á
jöðrunum. Gróbæru stönglarnir eru með aðlægum blöðum neðst, en gróblöðum
efst sem hvert bera eina gróhirzlu í öxlum sínum. Gróblöðin eru í fyrstu
aðlæg eins og hin, en rétta sig út þegar gróhirzlurnar þroskast. Neðri
gróhirzlur hvers sprota eru aðeins með fjórum stórgróum hver, en þær
efri eru með fjölmörgum, gulum smágróum.
Sprotar mosajafnans minna ofurlítið
á laufsprota mosa, en þekkjast frá þeim á gróaxinu með vel aðgreindum
stórgró- og smágróhirzlum. Hann er auðþekktur frá öllum öðrum
byrkningum.