Hlíðaburkninn er ólíkur öllum öðrum íslenzkum burknum, og því auðþekktur frá þeim á blaðlöguninni. Hann er fremur lágvaxinn (10-20 sm) með stilklöngum, margskiptum, þrífjöðruðum, hárlausum blöðkum sem standa í þéttum þyrpingum. Blaðstilkurinn getur verið allt að tvöfalt lengri en blöðkurnar. Þær eru tvenns konar, tillífunarblöð utan með, en gróbær blöð í miðju, en báðar blaðgerðir eru jafn mikið samsettar. Smábleðlar þriðju gráðu eru flatir, egglaga og fjaðursepóttir á tillífunarblöðunum, en verða sívalir og aflangir á gróbæru blöðunum, þar sem hliðarrendurnar verpast niður yfir gróblettina sem eru í tveim röðum meðfram blaðröndinni báðum megin, í fyrstu aðskildir en renna síðar saman í samfellda rák. Gróhulu vantar. Hlíðarburkninn er hárlaus, en hefur örfá himnukennd hreistur neðst á blaðstilkunum.
Hlíðaburkni í hlíðinni ofan við Hesteyri í Jökulfjörðum árið 1980.
Hér sést dæmigerður vaxtarstaður hlíðaburkna, innan um grjót í snjóþungri hlíð.