Flóra Íslands - Byrkningar

A B D E F G H I J K L M

 

N O P R S T U V Þ Æ


Álftalaukur
Beitieski
Burstajafni
Dílaburkni
Dvergtungljurt
Eski
Fergin
Fjallaliðfætla
Fjöllaufungur
Hlíðaburkni
Keilutungljurt
Klettaburkni
Klóelfting
Köldugras
Lensutungljurt
Liðfætla
Litunarjafni
Lyngjafni
Mánajurt
Mosaburkni
Mosajafni
Mýrelfting
Naðurtunga
Renglutungljurt
Skeggburkni
Skjaldburkni
Skollafingur
Skollakambur
Skorutungljurt
Skógelfting
Stóriburkni
Svartburkni
Tófugras
Tungljurt
Tunguskollakambur
Vallelfting
Vatnalaukur
Þríhyrnuburkni
Þrílaufungur
Þúsundblaðarós

Lyngjafni

Lycopodium annotinum

er af jafnaætt og er fremur sjaldgæfur á landsvísu, en nokkuð víða í ákveðnum landhlutum.  Útbreiðsla lyngjafnans minnir að sumu leyti á útbreiðslu litunarjafna, en þó verulega þrengri. Hann fylgir snjóþungum svæðum, en vex þó ekki í snjódældunum sjálfum heldur í lyngdældum eða lyngmóum. Aðalútbreiðslusvæðin eru því norðanverðir Austfirðir, Miðnorðurland á Flateyjar- og Tröllaskaga, Vestfirðir og Snæfellsnes. Sunnar á landinu er hann mun sjaldgæfari, og dregur sig þar meira inn til landsins. Lyngjafninn finnst að jafnaði frá láglendi upp í um 350 m hæð, hæst fundinn ofan 400 m í Víkurskarði á Vaðlaheiði. Hann vex einkum í bláberjalyngsmóum, oft innan um aðalbláberjalyng, frá láglendi upp í 400 m. Hann myndar allt að 30-70 sm langa, jarðlæga stöngla sem oft liggja niðri í lynginu, en upp af þeim rísa uppsveigðar, þéttblöðóttar greinar með litlum, oddmjóum og útstæðum, sverðlaga, gljáandi, 4-8 mm löngum heilrendum blöðum. Jarðlægu sprotarnir eru gisblöðóttir, gáraðir af blaðfætinum sem er samvaxinn sprotanum nokkuð niður frá blaðstæðinu. Uppréttu greinarnar eru 5-18 sm á hæð og líta oft út fyrir að vera liðskiptar, þar sem hver ársvöxtur afmarkar sporbaugóttan bút við það að blöðin sem myndast í byrjun og lok vaxtartímabilsins eru styttri en hin (sbr. neðstu myndina). Oft mynda sumir sprotarnir gróax á efri enda, en gróblöðin eru miklu styttri en hin, og eru tígul- eða hjartalaga, breiðfætt, mógræn í fyrstu en síðan ljósmóleit, með himnukenndum, óreglulega skertum jöðrum.

Lyngjafninn þekkist bezt á hinum löngu, jarðlægu sprotum með útstæðum, odd­mjóum blöðum. Burstajafninn þekkist frá honum á löngum hároddi blaðanna.

 

Hér er lyngjafni á Vatnsenda í Héðinsfirði 23. júní 1991.  Þar er lyngjafninn í samfélagi með bláberja- og aðalbláberjalyngi.

 

Lyngjafni í Fljótavík á Hornströndum árið 1982.