Flóra Íslands - Byrkningar

A B D E F G H I J K L M

 

N O P R S T U V Þ Æ


Álftalaukur
Beitieski
Burstajafni
Dílaburkni
Dvergtungljurt
Eski
Fergin
Fjallaliðfætla
Fjöllaufungur
Hlíðaburkni
Keilutungljurt
Klettaburkni
Klóelfting
Köldugras
Lensutungljurt
Liðfætla
Litunarjafni
Lyngjafni
Mánajurt
Mosaburkni
Mosajafni
Mýrelfting
Naðurtunga
Renglutungljurt
Skeggburkni
Skjaldburkni
Skollafingur
Skollakambur
Skorutungljurt
Skógelfting
Stóriburkni
Svartburkni
Tófugras
Tungljurt
Tunguskollakambur
Vallelfting
Vatnalaukur
Þríhyrnuburkni
Þrílaufungur
Þúsundblaðarós

Klóelfting

Equisetum arvense

er algeng um allt land frá láglendi upp í um 1000 m hæð.  Hún vex bæði í ræktarjörð og úthaga, mólendi, flögum, valllendi og fjallamelum.  Gróhirzlur ber hún á sérstökum vorkólfum sem nefndir eru skollafætur eða góubeitlar, en þeir vaxa mjög snemma á vorin áður en hinir grænu sprotar elftingarinnar fara að sjást.  Eins og hjá öðrum byrkningum verður til forkím þegar gróin spíra.   Forkímið er blaðkennt og myndar kynfrumur, og eftir frjóvgun vex ný elfting upp af okfrumu forkímsins (neðsta myndin til hægri).

Hinir grænu sprotar klóelftingarinnar hafa gáróttan stöngul með fíntenntu slíðri og kransstæðum, uppsveigðum greinum við hvern lið. Slíðurtennur stöngulsins eru svartar, 10-12, greinarnar jafn margar, grænar, hvassþrístrendar í endann en ferstrendar næst stofninum. Greinarnar eru einnig liðskiptar, með þrítenntu slíðri við hvern lið. Hinir svörtu jarðstönglar klóelftingarinnar verða oft áberandi þegar grafnar eru djúpar gryfjur, þeir geta náð metra niður í jörðina eða meira, og má stundum sjá á þeim kolsvört hnýði, svokölluð sultarepli. Í þeim er geymd forðanæring yfir veturinn, sem auðveldar elftingunni að koma upp grókólfunum snemma vors áður en orkustöðvar grænu sprotanna taka til starfa.

Klóelftingin líkist einna mest vallelftingu, og getur stundum verið erfitt að greina þær í sundur, einkum skuggaeintök sem vaxa í skógar-botnum. Greinar klóelftingarinnar eru heldur grófari og oftast nokkuð uppréttar eða uppsveigðar, greinar vall­elftingar fíngerðari og oftast láréttar eða lítið eitt niðursveigðar. Greinakrans klóelftingarinnar er oft toppmyndaður að ofan og stendur stöngulendinn gjarnan upp úr, en vaxtarlag vallelftingarinnar er kollóttara í toppinn. Oft er notað til aðgreiningar þegar annað þrýtur, að skoða lengdarhlutfall stöngulslíðurs og neðsta greinliðar. Á klóelftingu er neðsti greinliðurinn töluvert lengri en stöngulslíðrið, en ívið styttri á vallelftingunni. Þar sem þessi hlutföll eru önnur efst og neðst á stönglinum er vissast að nota stöngulmiðjuna til samanburðar. Frá mýrelftingu, sem oftast hefur miklu færri greinar, má þekkja klóelftinguna á hinum skarpþrístrendu greinendum.


 

Tillífunarsprotar klóelftingar á Arnarhóli í Kaupangssveit í sept. 1963.

 

Gróbærir vorkólfar klóelftingar (skollafætur eða góubeitlar) á Stíflu í Fljótum vorið 1994.

 

Forkím klóelftingar við volgar hraunglufur í Surtsey árið 1975