Flóra Íslands - Byrkningar

A B D E F G H I J K L M

 

N O P R S T U V Þ Æ


Álftalaukur
Beitieski
Burstajafni
Dílaburkni
Dvergtungljurt
Eski
Fergin
Fjallaliðfætla
Fjöllaufungur
Hlíðaburkni
Keilutungljurt
Klettaburkni
Klóelfting
Köldugras
Lensutungljurt
Liðfætla
Litunarjafni
Lyngjafni
Mánajurt
Mosaburkni
Mosajafni
Mýrelfting
Naðurtunga
Skeggburkni
Skjaldburkni
Skollafingur
Skollakambur
Skorutungljurt
Skógelfting
Stóriburkni
Svartburkni
Tófugras
Tungljurt
Tunguskollakambur
Vallelfting
Þríhyrnuburkni
Þrílaufungur
Þúsundblaðarós

Tungljurt

Botrychium lunaria

er af naðurtunguætt, algeng um land allt frá láglendi upp í 700 m hæð, og auðþekkt á hinum hálfmánalaga hliðarsmáblöðum sínum.  Gróhirzlurnar sitja á annarri grein og líkjast vínberjaklösum.  Tungljurtin vex gjarnan í graslendi eða grasi vöxnum móum. Hæsti fundarstaður tungljurtar er á jarðhitasvæði í Öskju í 1180 m, en í köldum jarðvegi á Þverárdalshnjúk í Öxnadal í 1000 m.

Tungljurtin er fjölær jurt, um 5-25 sm há, sem vex upp af örstuttum, uppréttum jarðstöngli. Ofanjarðarhluti jurtarinnar myndar eitt tvískipt blað. Gróbæri blaðhlutinn ber í toppinn þéttan klasa af hnöttóttum gróhirzlum, sem allar vísa til sömu hliðar. Gróhirzlurnar eru í fyrstu grænar og bústnar, en gulna við þroskun og verða að lokum brúnar og opnast þá með þverrifu í kollinn. Tillífunarhluti blaðsins er fjaður-skiptur, 2-8 sm á lengd og stilklaus eða á stuttum stilk, oftast með 4-8 pörum smáblaða sem eru hálfmána- eða blævængslaga og breið að framan en dragast saman í keilulaga fót nær miðstrengnum. Blaðpörin liggja nokkurn veginn í plani hvert við annað nema neðsta blaðparið sem vísar áberandi fram í átt að stilknum. Smáblöðin eru oftast nokkurn veginn heilrend, en stundum með smáskerðingar í blað-röndina. Þau eru oftast nokkuð breiðari en löng og standa svo þétt saman, að þau skarast verulega, þ.e. þekja blaðrendur hvers annars. Þau eru gaffalstrengjótt, þ.e. strengirnir greinast endurtekið í tvennt frá fætinum í átt að blaðröndinni.

Tungljurt þekkist auðveldlega frá langflestum öðrum íslenzkum jurtum á tungllaga smáblöðum fjaðurskiptrar blöðkunnar. Aðeins keilu-tungljurt er afar lík henni. Tungljurtin þekkist einkum frá henni á skörun blaðparanna, breiðum og tungllaga smáblöðum, og á því að neðsta blaðparið vísar vel fram og er úr plani við hin.
 
 

Tungljurt í Eyjafirði árið 1983.