Tungljurtin er fjölær jurt, um 5-25
sm há, sem vex upp af örstuttum, uppréttum jarðstöngli. Ofanjarðarhluti
jurtarinnar myndar eitt tvískipt blað. Gróbæri blaðhlutinn ber í toppinn
þéttan klasa af hnöttóttum gróhirzlum, sem allar vísa til sömu hliðar.
Gróhirzlurnar eru í fyrstu grænar og bústnar, en gulna við þroskun og
verða að lokum brúnar og opnast þá með þverrifu í kollinn.
Tillífunarhluti blaðsins er fjaður-skiptur, 2-8 sm á lengd og stilklaus
eða á stuttum stilk, oftast með 4-8 pörum smáblaða sem eru hálfmána- eða
blævængslaga og breið að framan en dragast saman í keilulaga fót nær
miðstrengnum. Blaðpörin liggja nokkurn veginn í plani hvert við annað
nema neðsta blaðparið sem vísar áberandi fram í átt að stilknum.
Smáblöðin eru oftast nokkurn veginn heilrend, en stundum
með smáskerðingar í blað-röndina. Þau eru oftast nokkuð breiðari en löng
og standa svo þétt saman, að þau skarast verulega, þ.e. þekja blaðrendur
hvers annars. Þau eru gaffalstrengjótt, þ.e. strengirnir greinast
endurtekið í tvennt frá fætinum í átt að blaðröndinni.