Flóra Íslands - Sveppir
Ullblekill
Coprinus comatus
eða öðru nafni
ullserkur er eflaust gamall
slæðingur á Íslandi og vex nær eingöngu í grennd við hýbýli eða
meðfram vegum. Hann er oft á gömlum sorphaugum, inni í
húsagörðum en langoftast vex hann í vegbrúnum víða um land.
Þegar sveppurinn fyrst kemur upp á sumrin, er hann hvítur, í lögun
eins og votheysturn. Hann er flösugur utan, og þegar sveppurinn
þroskast dökknar hann að ofan, einkum flösurnar sem verða
brúnleitar. Hattbarðið víkkar að neðan, og svartar fanirnar verða
sýnilegar. Hattbarðið brettist síðan upp, verður svart og
kvoðukennt, líkist þá tjöru. Gróin berast með þessum þykka
vökva, líklega oft með bílhjólum meðfram vegunum. Sveppurinn
er fremur góður til átu fyrst eftir að hann kemur upp úr jörðunni á
meðan hann er alveg hvítur, en vegna vaxtarstaða hans, sem oft eru í
útblásturslofti bifreiða, forðast margir að snerta hann.
Ullblekill við vegarbrún
á Fljótsdalshéraði í ágúst árið 1996.