er ryðsveppur sem vex á laufblöðum birkitrjáa. Hann myndar ryðgróhirslur (ryðskurfur) sem sprengja upp yfirhúðina á neðra borði birkiblaðsins. Þelgró myndast síðar á sumrin á birkiblöðunum. Ryðskurfurnar geta orðið mjög þéttar á birkiblöðunum, og þau gulna þá alveg fyrir tímann og falla af. Stundum kveður svo mikið af sveppnum, að skógurinn fær allur haustlit á miðju sumri.
Skálarstig sveppsins vex hins vegar á lerki, og myndar skálhirslur á nálum lerkisins. Sveppurinn hefur sem sagt hýsilskipti milli birkis og lerkis. Þó mun hann ekki vera algjörlega háður þessum hýsilskiptum, hann getur komist af milli ára á birkinu eingöngu án þess að fara á lerkið.
Samkvæmt Sveppabók Helga Hallgrímssonar eru engar gamlar heimildir til um birkiryð á Íslandi fyrr en árið 1922, þegar það var fyrst skráð í uppeldisstöð á Hallormsstað, en þá var þar hafin ræktun á lerki. Þetta bendir því til að birkiryð hafi ekki verið á íslenska birkinu, heldur borist til landsins með ræktun lerkis. Nú í seinni tíð er það orðið algengt um allt landið.