Þalið er hrúðurkennt, gulgrænt og
svartflikrótt, svartur litur forþalsins nokkuð ráðandi með smáa,
gulgræna þalreiti sem oftast eru aðeins 0,2-0,5 mm að stærð,
tígullaga, eða mynda oft mjóa, hálfmánalaga kraga utan með
askhirzlunum. Askhirzlurnar eru litlar, 0,3-0,8 mm, flatar, í hæð
við þalið, með svartri rönd, skífulaga eða nokkuð strendar, mattar.
Gróin eru átta í hverjum aski, marghólfa múrskipt, dökk, 26-38 x
12-16 µm. Askþekjan er grænbrún til ólífugræn, asklagið ljós
gulgrænt eða glært, botnþekjan dökk brún. Mánaflikran vex á klettum,
líparíti eða basalti, einkum hátt til fjalla. Hún er fremur
sjaldséð, einkum fundin á Miðhálendinu, Kerlingarfjöllum, við
Tungnafellsjökul og Langasjó.
Þalsvörun: K-, C-,
KC-, P+ daufgul eða -, J+blá.
Innihald:
Rhizocarpinsýra, Psorominsýra.
Mánaflikra frá Hverabotnum efri í Kerlingarfjöllum, þar sem hún óx á líparítkenndu bergi hátt uppi í fjöllum 10. ágúst 2006. Myndin er tekin á Náttúrufræðistofnun á Akureyri í marz 2013.