Vallhumall
Achillea millefolium
er algengur við
byggð ból í kringum allt landið. Vallhumallinn hefur venjulega
hvítar körfur, en oft eru þær nokkuð bleiklitar, sjaldnar nær rauðar
eins og sést á einni myndinni hér að neðan. Í sumum landshlutum er
vallhumallinn einkum í kringum bæi, og kemur því að nokkru leyti fram
eins og slæðingur sem gæti hafa borizt af manna völdum. Annars staðar,
einkum á Norður- og Norðausturlandi er hann mjög rótgróinn í villtu
landi og vex þar bæði upp til fjalla og inn á hálendið, á nokkrum stöðum
upp fyrir 700 m hæð. Hann er til dæmis mjög algengur víða um
Ódáðahraun og hálendið þar í kring. Hæstu fundarstaðir vallhumals eru í
900 m hæð sunnan í Skessuhrygg austan Höfðahverfis við Eyjafjörð, og í
850 m hæð í Syðri-Hágangi við Vopnafjörð.
Blóm vallhumals standa
nokkur saman
í örsmáum (4-5 mm) körfum, sem í fljótu bragði líta út sem
einstök blóm (sjá neðstu mynd). Körfurnar skipa sér síðan margar saman í
þétta hálfsveipkennda blómskipan. Tungukróna jaðarblómanna eru hvít eða
bleik, sjaldnar rauð, hjartalaga. Hvirfilblómin eru pípukrýnd,
hvít-grágul. Reifablöðin eru græn með dökkbrúnum himnufaldi, langhærð.
Stöngullinn er loðinn, með stakstæðum, 7-15 mm breiðum og
3-8 sm löngum, tvífjöðruðum, loðnum blöðum. Smáblöðin eru
djúpskert með striklaga, oddmjóum flipum. Útbreiðsla
vallhumals bendir eindregið til þess, að hann sé gamall og hafi vaxið lengi á
Norðausturlandi, einkum inn til
landsins, en sé aðfluttur síðar, líklega um eða eftir landnám á Suður-
og Vesturlandi, þar sem hann er mest heima við bæi.
Hvítur vallhumall á
Arnarhóli, 18. ágúst 2009
Rauður vallhumall á
Arnarhóli í júlí 2009.
Körfur vallhumalsins í
návígi. 5 tungukrýnd blóm utan með og nokkur pípukrýnd blóm í
miðju hverrar körfu. Myndin er tekin 3. ágúst 2004.