Upp af láréttum jarðstöngli
ferlaufungsins vaxa uppréttar hliðargreinar, hver um sig með fjórum,
kransstæðum blöðum og einu blómi í toppinn. Blómið er fjórdeilt.
Bikarblöðin eru lensulaga, oddmjó, græn, 2-3 sm á lengd og
4-5 mm breið. Innri blómhlífarblöðin eru talsvert styttri,
gulgræn, striklaga. Fræflar eru átta með löngum, gulum frjóhirslum.
Frævan er dökkfjólublá en dökknar meir og verður að eitruðu beri við
þroskun. Blöðin eru oddbaugótt-öfugegglaga, 5-8 sm löng og
3-4 sm á breidd ef þau ná fullri stærð, bogstrengjótt, svo
til heilrend.
Hér er ferlaufungur innan um blöð af blágresi, hrútaberjalyngi og maríustakk í Slútnesi í Mývatni 23. júlí 1998.