Silfurhnappur
Achillea ptarmica
er ekki gamall í
landinu, gæti í mesta lagi verið frá því um landnám eða síðar.
Hann líkist fljótt á litið vallhumli, en hefur miklu færri en lítið eitt
stærri blómkörfur. Hann er nokkuð útbreiddur í villtu landi á
litlu svæði í
Árnessýslu, einkum meðfram Ölfusá. Þar virðist hann þegar hafa numið land
varanlega, en annars staðar vex hann
í
graslendi í gömlum hlaðvörpum eða grónum, afræktum görðum bæði í þorpum
og á sveitabæjum. Hann er nokkuð lífseigur, og má því oft finna hann á
gömlum eyðibýlum sem eru löngu yfirgefin. Hæstu fundarstaðir hans
eru í 380 m hæð í Víðidal í Lóni, og 370 m á Bakkaseli í Öxnadal.
Blóm silfurhnapps eru mörg saman í
fremur litlum (1-1,5 sm) körfum. Jaðarblómin eru tungukrýnd, tungan
hvít, 4-5 mm á lengd og 3-4 mm á breidd.
Hvirfilblómin eru pípukrýnd, grænhvít. Krónupípan er um 4 mm á lengd,
klofin efst með 5 stutta, þrístrenda krónuflipa. Reifablöðin eru
tungulaga, græn með svörtum jaðri, þéttgráloðin. Laufblöðin eru
sverðlaga, oddmjó, tennt, stilklaus, hálfgreipfætt með grófum tann-sepum
við fótinn, 2-5 sm á lengd.