Flagasóleyjan er skriðul, jarðlæg
og fjölær jurt sem ýmist vex á kafi í botni tjarna eða á votum
leirjarðvegi. Blómin eru fimmdeild, um 1 sm í þvermál. Krónublöðin eru
gul, öfugegglaga, ávöl í endann, 5-6,5 mm löng. Bikarblöðin eru töluvert
styttri, 3-3,5 mm, gulgræn eða móleit og falla fljótt af. Fræflar eru
allmargir, oft 15-20, frævur álíka margar með stuttri trjónu.
Stöngullinn er langskriðull með bogsveigðum liðum sem skjóta rótum á
liðamótum. Blöðin eru allmörg saman í stofnhvirfingu, og oft tvö eða
fleiri á mótum stöngulliðanna, langstilkuð. Blöðin eru ýmist mjó og
striklaga, eða breiðari í endann og mynda þar aflanga, lensulaga,
heilrenda blöðku.
Vegna hinna sérkennilegu, rótskeytu
stöngla hefur flagasóley einnig verið nefnd liðaskriðsóley. Hún vex
einkum í botni tjarna og grynningum stöðuvatna, en einnig oft í
uppþornuðum tjarnastæðum, eða í rökum leirflögum. Hún er algeng um allt
land nema ofan til á hálendinu, nær almennt upp í 700 m hæð en lítið þar
fyrir ofan.
Blómstrandi flagasóley á Akureyri árið 1984.
Hér sést betur hvernig flagasóleyjan skríður með bogsveigðum liðum. Myndin er tekin í Grænulág við Dalbæ á Snæfjallaströnd 10. júlí árið 2010.