Hásveifgras
Poa trivialis
er allhávaxin
grastegund með stórum punti. Það líkist nokkuð vallarsveifgrasi, en
hefur fíngerðari punt vegna þess að smáöxin eru minni, oftast grænan á
litinn. Bezta einkennið til að greina það frá vallarsveifgrasi er þó hin
langa (oft meir en 5 mm) og oddmjóa slíðurhimna, sem sést á neðri myndinni
hér til hliðar. Hásveifgrasið vex gjarnan í deigu landi, oft við lindir eða í
skurðum, en einnig í túnum. Líkist einnig skrautpunti, en hefur mun
styttri punt, og miklu mjórri blöð. Hásveifgras er ekki mjög algengt,
mest á láglendi en hefur fundizt upp í 600 m við jarðhita.
Hásveifgras er hávaxið með fremur
fíngerðum, grænum, 12-18 sm löngum, keilulaga punti. Smáöxin eru 2-4
blóma, blómagnir eru grænar með skýrum taugastrengjum, oddmjóar og
himnurendar. Stöngul-blöðin geta verið nokkuð breið, 3-5 mm,
slíðurhimnan mjög löng (5-8 mm) og odddregin.
Puntur af hásveifgrasi á Arnarhóli í júlí
2003.
Hér sjáum við slíðurhimnu hásveifgrassins, en
hún er eitt bezta tegundareinkenni þess.