er lítil, einær jurt, sem vex í snöggu
graslendi eða mólendi. Blöðin eru oftar en ekki dökkmóleit eða
purpurabrún. Blómin eru ákaflega falleg þótt smá séu, skreytt fjólubláum
línum og gulum bletti niðri í blómgininu. Augnfróin er algeng um allt
land.
Augnfróin er nokkuð breytileg að því leyti, að stundum er hún grönn og
nær ógreind, en getur einnig verið marggreind og nokkuð digur. Krónan er
pípulaga neðan til en varaskipt efst, 4-7 mm á lengd. Bikarinn er með
V-laga, broddyddum flipum, grænleitur með dökkum jöðrum og taugum. Hann
er hærður, bæði með hvítum broddhárum og óstilkuðum kirtilhárum. Blómin
hafa fjóra fræfla með purpurasvörtum frjóhirzlum. Frævan er tvíblaða og
verður að aflöngu hýðisaldini. Blöðin eru gagnstæð, lensulaga,
öfugegglaga eða egglaga, gróftennt með útsperrtum tönnum, broddhærð,
oftast nokkuð blámenguð.
Myndin af augnfró er tekin í
Jarðbaðshólum í Mývatnssveit í júní 1996